Fjórða iðnbyltingin og viðskiptadeildir háskóla

Fjórða iðnbyltingin

Í dag upplifum við mestu framfarir mannkynssögunnar og hefur World Economic Forum nefnt þetta framfaraskeið fjórðu iðnbyltinguna (Schwab 2017). Við höfum áður upplifað framfaraskeið en það sem aðskilur fjórðu iðnbyltinguna frá öðrum er að það eru ekki bara framfarir á einu sviði. Margir fræðimenn tala um að við séum að nálgast einskonar vatnaskil (e.: tipping point) og að næstu ár munu jafnvel bjóða upp á meiri og hraðari breytingar á fleiri sviðum en nokkurn tíma áður. Dæmi um tækniþróanir sem virðast vera á næsta leiti eru sjálkeyrandi bílar, almennar vitvélar, sýndarveruleikaheimar, harðir diskar sem hægt er að græða í heila, meðferðir til lengingu lifialdurs og bálkeðjur (blockchain).

Viðskiptadeildir háskóla

Viðskiptalíkan viðskiptadeilda háskóla er fremur einfalt. Nemendur koma þar inn og tileinka sér kunnáttu, hæfni og leikni í fögum sem tengjast fyrirtækjum og atvinnulífi. Kennsla við viðskiptadeildir mótast af þeim stjórnunarsviðum sem eru í rekstri skipulagsheilda eins og t.d. stjórun á fjármálum, mannauði, markaðsmálum og nýjungasköpun.

Fjórða iðnbyltingin mun hafa margvísleg áhrif á þessa starfssemi. Upplýsingatæknin er til dæmis ein og sér að gerbreyta aðkomu að kennslu. Í raun er hið hefðbundna kennsluform í mörgum háskólum þar sem nemendinn situr aðgerðalaus og hlustar á kennara tala fyrir framan PowerPoint kynningu löngu úrelt. Það bíður margra háskóla stórt verkefni að taka til sín nýja möguleika í kennslu eins og til dæmis kennsla í sýndarveruleika, tengja kennslu við fjarkennslu í öðrum háskólum, breyta námsmatsaðferðum og tengja endurgjöf til nemenda nýjum tæknimöguleikum.

Breytingahraði

Það sem þó mun hafa mest áhrif á viðskiptadeildir háskóla er hinn mikli breytingahraði í atvinnulífinu þegar kemur að sjálfvirknivæðingu starfa, nýjum störfum sem skapast og þeim nýju og oft framandi viðskiptalíkönum sem verða möguleg með til dæmis Interneti hluta og virðiskeðju gagna. Þetta mun bera með sér gríðarleg tækifæri fyrir nemendur með viðskiptamenntun. Samtímis munu þó nemendur sem útskrifast með viðskiptafræðigráðu munu oft þurfa að endurskilgreina sig og sína kunnáttu á sínum starfsferli. Þarmeðtalið að sækja sér nýja menntun eftir því sem þeirra starfssvið breytist. Rannsóknir sýna að meðalstarfsmaður í framtíðinni mun skipta um starf 10-15 sinnum, sem í raun þýðir að starfsmaður er 3-4 ár í sama starfi.

Hvernig eiga viðskiptadeildir háskóla að bregðast við þessu?

Breytingaskilningur

Í fyrsta lagi að kenna breytingaskilning og þjálfa seiglu (e.: resilience). Það er að segja að skilja mismunandi tegundir af breytingum, hvernig skal bregðast við þeim, hvernig hægt er að skipuleggja viðbrögð við breytingum og hvað það krefst að takast á við erfið breytingaverkefni. Breytingar geta verið sársaukafullar og það þarf oft seiglu til að komast í gegnum þær.

Nýsköpun og frumkvöðlahugsunarhátt

Í öðru lagi verður að leggja áherslu á nýsköpun og frumkvöðlafræði. Breytingar fela í sér vegferð mót einhverju nýju. Það er því mikilvægara en nokkru sinni áður að kenna aðferðir til nýsköpunar, hæfni í að beyta þessum aðferðum bæði í skipulagsheildum og í eigin lífi. Hér er ekki (eingöngu) verið að tala um að búa til nýja vöru og þjónustu heldur einnig að síbreyta og bæta það sem þegar er í notkun (e.: continuous improvement).

Þjálfa gagnrýna hugsun.

Aldrei fyrr hafa jafn margir hagsmunaaðilar í viðskiptalífinu reynt að hafa áhrif á hegðun og hugsun okkar og aldrei hefur það verið jafn mikilvægt að vera gagnrýninn á þessi áhrif. Gagnrýnin hugsun er hins vegar ekki eitthvað sem við fæðumst með fullbúna. Hana þarf að móta og þar gegna rannsóknir í viðskiptadeildum lykilhlutverki. Þær snúast oft um að komast að því hvað virkar og hvernig í skipulagsheildum. Eins og með fréttaflutning er líka hægt að tala um falska vitneskju eða “fake knowledge”. Það er mikilvægt að nemendur læri vera gagnrýnin á vitneskju útfrá t.d. hver hefur búið hana til, hvernig hún er búin til, í hvaða samhengi og hvað er hægt að nota hana í. Skrif á lokaverkefnum í grunnnámi og í meistaranámi miðast til dæmis að því að þjálfa þessa hugsun.

Auka víðsýni

Stafræning heimsins ber með sér að landamæri, tungumálahindranir og tímabelti missa mikilvægi sitt og kunnátta, hæfni og leikni í viðskiptafræði verður hnattræn. Viðskiptadeildir verða að skapa möguleika á því að nemendur geti tileinkað sér víðsýni sem gengur þvert á menningarheima, atvinnugreinar og dreyfikeðjur. Þetta verður að gerast með aukinni samvinnu við erlanda háskóla og fyrirtækja, sem gefa nemendum möguleika á að tengjast inní nám og starfsemi í alþjóðlegu samhengi.

Á morgun er í dag

Viðskiptadeildir og reyndar háskólaumhverfið í heild sinni stendur frammi fyrir stórum áskorunum á næstu árum. Það er mikilvægt að viðskiptadeildir bregðist við og taki til sín mögileika og áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar. Röskun (e.: disruption) á atvinnugrein er nefnilega ekkert sem einskorðast við bóksala, leigubíla og hótel. Háskólar geta líka átt á hættu að verða skildir eftir í örri þróun útboðs annara skipulagsheilda en en háskóla á nýjum námsleiðum og aðferðum.